Frón styður Rauðakross Íslands
Frón og Rauðikross Íslands vinna saman. Hluti af andvirði hvers selds pakka af Mjólkurkexi rennur til styrkar Rauðakrossinum.

Frón undirritaði samstarfssamning við Rauða kross Íslands í desember í fyrra þar sem kveðið var á um að Frón myndi styrkja innanlandsstarf Rauða kross Íslands (RKÍ) um 10 krónur af andvirði hvers selds mjólkurkexpakka frá Frón.

Samningur Frón og RKÍ er sá fyrsti af þessu tagi sem RKÍ skrifar undir á Íslandi en samningar sem þessir tíðkast víða erlendis sem stuðningsfyrirkomulag við hjálparstarf Rauða krossins.

Það fer vel á því að styrkja öflugt innanlandsstarf RKÍ með Frón mjólkurkexinu því hvoru tveggja á sér langa sögu á Íslandi. RKÍ hefur unnið öflugt starf á Íslandi allt frá árinu 1924 en kexverksmiðjan Frón var stofnuð tveimur árum síðar.

Mjólkurkexið þekkja Íslendingar einnig vel enda framleiðir Frón hundruð tonna af mjólkurkexi á hverju ári og vex framleiðslan árlega. Mjólkurkex Frón hefur verið framleitt í rúm fimmtíu ár og því má segja að RKÍ njóti góðs af góðri arfleifð Frón. Það er því sérlega ánægjulegt að RKÍ geti notið góðs af samstarfi við íslensk fyrirtæki og vonir eru bundnar við að styrkurinn muni koma sér afar vel.

Þá er samstarfið ekki síður mikilvægt Frón enda mikilvægara en oft áður að halda uppi atvinnustigi í landinu og kaupa íslenska vöru.

Samningurinn tók gildi 1. janúar 2010 og mun Frón afhenda RKÍ það fé sem safnast í desember árlega.

Deila |