Kremkex frá Frón
Kremkexið frá Frón hefur af kexáhugafólki gengið undir nafninu Sæmundur á sparifötunum

Það eru margir sem kannast við Sæmund í sparifötunum. Sumir vita nákvæmlega við hvað er átt á meðan aðrir kannast við nafnið en vita ekki fyrir hvað það stendur. Munurinn þar á liggur líklega helst í aldri fólks.

Þeir sem eru orðnir fullorðnir, eins teygjanlegt hugtak og það er nú, eru líklegri til að vita hver Sæmundur á sparifötunum er heldur en yngsta kynslóðin sem rekur líklega í vörðurnar ef spurð er um Sæmund. Þeir sem vita hvað við er átt, vita þó ekki endilega hvers vegna Sæmundur er svo nefndur. Það er saga að segja frá því.


Ástæðan fyrir því að Sæmundur fékk nafnið er nokkuð á reiki eins og vera ber með góða flökkusögu. Líklegasta skýringin er þó eftirfarandi: Eitt sinn var til kexverksmiðja sem hét Esja. Hún framleiddi vanillukex sem gjarnan var nefnt Sæmundur í höfuðið á forstjóranum Sæmundi Ólafssyni.

Esja sameinaðist Frón um 1970. Það er óvíst hvenær, en á einhverjum tímapunkti var farið að kalla Kremkexið frá Frón Sæmund í sparifötunum, og er augljóst hvers vegna.

Sumir nota nafnið um hvaða kex sem er, sem komið er í ‘fínni’ búning, en upprunalegi Sæmundur í sparifötunum er semsagt Kremkexið frá Frón. Einfaldur Sæmundur er svo Matarkexið.

Það er gaman að slíkum nafngiftum og um að gera að halda þeim lifandi. Náðu þér í pakka af Kremkexi frá Frón og bjóddu fjölskyldunni og gestum upp á Sæmund í sparifötunum. Kannast allir við nafnið?

Deila |