Teboð að hætti óða hattaransSíðasta vor birtist á hvíta tjaldinu nýjasta kvikmynd Tim Burton en viðfangsefnið var Lísa í Undralandi. Myndin skartaði góðu úrvali leikara þar sem Johnny Depp fór með hlutverk óða hattarans, Mia Wasikowska lék Lísu en auk þeirra komu meðal annars fram Helena Bonham Carter, Anne Hathaway og Matt Lucas. Kvikmyndin um Lísu í Undralandi er gerð eftir sögu Lewis Carroll og er nú þegar fáanleg á DVD frá Disney þar sem hægt verður að berja skrautlegar sögupersónurnar augum á ný.

Ein skrautlegasta sögupersónan er óði hattarinn en hann var afskaplega hrifinn af teboðum og hélt meðal annars eitt slíkt í kvikmyndinni. Teboð hattarans var æði sérstakt enda hefur oftast verið talað um hið brjálaða teboð þegar vitnað er í teboðið hans.

Síðan saga Carroll var fyrst fest á filmu hefur verið vinsælt að halda teboð þar sem þemað er einmitt hið brjálaða teboð óða hattarans. Núna með kvikmynd Tim Burtons hefur þetta orðið enn vinsælla. Frón leggur því sitt af mörkum fyrir kvikmyndaunnendur landsins, með nokkrum hugmyndum um hvernig mætti halda brjálað teboð að hætti óða hattarans.

Brjálað teboð

En hvernig skyldi maður nú fara að því að halda alvöru teboð að hætti óða hattarans? Það væri ósanngjarnt að tala um hvaða reglur mætti styðjast við til að halda ekta hattara-teboð því regluleysið er einmitt aðal einkenni slíks teboðs. En, fyrir öll alvöru teboð ætti að senda út frumleg boðskort. Mikilvægt er að láta hugmyndaflugið ráða þegar boðskortin eru send út. Það mætti til dæmis bjóða vinum og kunningjum í teboð þar sem spilaður yrði Hornafjarðarmanni við vildarvini Forsetans. Ekki væri verra ef hjartadrottning fylgdi með í boðskortinu til að undirstrika stemmninguna.

Þegar svo fólkið mætir í teboðið þá gildir að hafa allt sem skrautlegast og fjölbreyttast. Þá kemur Frónkexið sér vel sem meðlæti. Það mætti leggja skrautlegan dúk á langborð og svo þyrfti að hafa bolla, undirskálar og hnífapör eins ólík og hægt er. Því fleiri gerðir af borðbúnaði því betra, eiginlega væri flottast ef um væri að ræða svokallað þjófastell! Hugið að því að hafa einn mjúkan og stóran hægindastól við enda borðsins og svo má heldur ekki gleyma því að lauma litlum bangsa eða dóti ofan í einn teketilinn.

Hægt er að skreyta borðið með nánast hverju sem er, t.d. garðálfum, plastblómum, taflmönnum, spilum úr spilastokkum eða handspeglum.

Punturinn yfir i-ið er svo rjúkandi heitt te og reiðinnar býsn af kexkökum af öllum gerðum. Hér er ástæðulaust að spara við sig en Matarkex, Kremkex, Café Noir, María, Póló og Kósí væru tilvalin á borðið. Það mætti svo rita á kexkökurnar með glassúr „borðaðu mig“.

Nóg er til af tónlist sem sækir innblástur til Lísu í Undralandi og nægir að nefna „White Rabbit“ með Jefferson Airplane eða „I Am the Walrus“ með Bítlunum sem reyndar sækir innblástur í aðra sögu Lewis Carroll.

Svona gæti uppskrift að brjáluðu teboði hljóðað.

Deila |