Kexverksmiðjan Frón var stofnuð 12. júní árið 1926. Fyrstu húsakynni verksmiðjunnar voru í húsi Betaníu við Laufásveg og nokkrum árum eftir að starfsemin hófst, var verksmiðjan flutt að Grettisgötu 16. Árið 1936 flutti verksmiðjan í eigið húsnæði að Skúlagötu 28 og með flutningunum urðu töluverð þáttaskil í rekstrinum. Upp frá því ári nam framleiðslan að jafnaði alltaf yfir 100 tonnum af kexi á ári.

Í byrjun var vélakostur mjög takmarkaður og sem dæmi um það voru vélarnar knúnar með handafli, að undanskildum bakaraofni, og má segja að það hafi haldist óbreytt þar til flutt var í húsnæðið við Skúlagötu og vélakosturinn var endurnýjaður. Árið 1963 var aftur tekið til við að endurnýja vélarnar og árið 1976 var stigið stórt skref í átt að aukinni sjálfvirkni og framleiðni.

Á áttunda áratugnum voru framleiðslulínurnar orðnar þrjár og árleg framleiðslugeta um 1200 tonn. Frón flutti árið 2007 í nýtt húsnæði við Tunguháls og nú starfa um 25 manns hjá fyrirtækinu. Þar eru tvær framleiðslulínur sem ná vel að anna árlegri framleiðslu.

Kexið frá Frón á sér marga dygga aðdáendur og árlega renna um 700 tonn af ljúffengu kexi úr ofnunum. Matarkexið á þar heiðurssæti þar sem það hefur verið með frá upphafi og var fyrsta íslenska kextegundin á sínum tíma. Þá hefur Mjólkurkexið átt sinn sess á borðum Íslendinga í yfir fimmtíu ár.

Íslensk Ameríska ehf. (www.isam.is) keypti Kexverksmiðjuna Frón í árslok 1999. Strax var sett á stefnuskránna að bjóða upp á spennandi og ljúffengar nýjungar frá Frón á hverju ári og það hefur gengið eftir. Nýjungarnar hafa margar hverjar átt miklum vinsældum að fagna og náð að festa sig í sessi fljótt og örugglega.

Frón er leiðandi vörumerki á íslenskum kexmarkaði og hefur ekkert annað merki jafn sterka markaðshlutdeild, eða um þriðjung markaðarins. Mjólkurkexið er langvinsælasta kexið hér á landi. Íslendingar neyta árlega um 260 tonna af þessu ljúffenga kexi, eða tæpra 22 þúsund kílóa á mánuði! Það á sér greinilega stað í hjarta Íslendinga því enn eykst árleg sala á Mjólkurkexinu eftir meira en fimmtíu ár á markaði.

Frón hefur nánast eingöngu framleitt fyrir heimamarkað, en undanfarin ár hafa þó verið gerðar tilraunir með útflutning til Færeyja og hver veit nema að Frón kexið geri víðreist í framtíðinni.

Deila |