Vörumerkjastjóri Frón afhendir Tólfunni styrkinnÁrangur íslenska karlalandsliðsins á EM í Frakklandi hefur verið stórkostlegur og frammistaðan hefur verið framar öllum vonum og væntingum. Víkingaklappið hefur vakið verðskuldaða athygli eins og raunar allt sem snýr að íslensku stuðningsmönnunum sem hafa verið til mikillar fyrirmyndar á mótinu. Það var því sem reiðarslag þegar kom í ljós að Tólfan kæmist ekki út á leik Íslands og Frakklands í átta liða úrslitum vegna fjárskorts. Við hjá Frón máttum ekki til þess hugsa og ákváðum að grípa til okkar ráða.

 

Ákveðið var að styrkja Tólfuna um 300 þúsund krónur og skora á önnur fyrirtæki að gera slíkt hið sama. DV birti frétt um áskorunina og aðrir miðlar í kjölfarið. Boltinn fór að rúlla og áður en dagurinn var úti var ljóst að Tólfan myndi komast út. Flugsæti fyrir nokkra meðlimi voru í höfn, fjárframlög höfðu borist og daginn eftir kom meira að segja í ljós að Tólfunni yrðu útvegaðir miðar.

 

Oft veltir lítil þúfa þungu hlassi. Tólfan hefur sýnt og sannað að hún er sannarlega tólfti maðurinn á vellinum. Við erum stolt af því að hafa getað átt þátt í því að koma Tólfunni út og hlökkum ótrúlega til leiksins á sunnudaginn. Áfram Ísland! 

Deila |