Nú á sunnudaginn fögnum við hjá Frón 90 ára afmæli okkar. Kexverksmiðjan Frón var stofnuð 12. júní árið 1926. Fyrstu húsakynni verksmiðjunnar voru í húsi Betaníu við Laufásveg og nokkrum árum eftir að starfsemin hófst, var verksmiðjan flutt að Grettisgötu 16. Árið 1936 flutti verksmiðjan í eigið húsnæði að Skúlagötu 28 og árið 2007 fluttum við í nýtt húsnæði við Tunguháls. Það eru ekki mörg fyrirtæki á Íslandi sem geta fagnað svo löngum ferli svo við erum bæði stolt og ánægð.

Eins og gefur að skilja hefur margt breyst á þessum árum, í upphafi var takmarkaður vélakostur og flestar vélarnar voru knúnar með handafli. Vélakosturinn hefur vitaskuld verið endurnýjaður mörgum sinnum síðan og í dag erum við nútíma framleiðslufyrirtæki sem setur gæði í öndvegi.

 

Kexið frá Frón á sér marga dygga aðdáendur sem sannast á því að árlega renna um 700 tonn af ljúffengu kexi úr ofnunum okkar. Matarkexið á þar sitt heiðurssæti enda hefur þetta ljúffenga kex verið með frá upphafi og var fyrsta íslenska kextegundin á sínum tíma. Þá hefur Mjólkurkexið átt sinn sess á borðum Íslendinga í yfir fimmtíu ár.

 

Fagnaðu með okkur afmælinu, keyptu Frón kex í næstu verslun og rifjaðu upp allar góðu minningarnar sem þú átt sem tengjast Frón kexi. Kexið frá Frón hefur komið við sögu á hverjum degi í 90 ár og minningarnar því margar. 

Deila |