Flestum finnst hressandi og skemmtilegt að skreppa í gönguferð á góðum sumardegi, en húka innandyra og horfa á góða veðrið á góðum vetrardegi af því kuldinn og færðin eru ekki upp á það besta. Það er óþarfi. Gönguferðir að vetrarlagi eru ef eitthvað er skemmtilegri. Það þarf bara að búa sig vel.

Þegar gengið er á fallegum laugardegi eða sunnudegi um mitt sumar gerir lítið til þó búnaður sé af skornum skammti. Öðru máli gegnir um gönguferðir í náttúrunni yfir vetrartímann. Þá er mikilvægt að búnaður sé í lagi. Eitt af því sem ekki má klikka er heitur drykkur á brúsa og eitthvað gott til að narta í. Við hjá Frón mælum með ferköntuðu Mjólkurkexi, sem fer vel í bakpoka og subbast ekki þó borðað sé í hönskum.

Láttu vita af ferðum þínum
Lykilatriðið er að skilja eftir ferðaáætlun hjá aðstandendum, eins og fram kemur í frábærri samantekt á Facebook-síðunni Safetravel.is Iceland. Ef ætlunin er að fara í stutta gönguferð uppi á Hólmsheiði á sólríkum vetrardegi er ágætt að láta einhvern vita hvert ferðinni er heitið, og hvenær ráðgert er að koma heim. Viðkomandi þarf þá að vera tilbúinn að láta Neyðarlínuna vita með símtali í 112 ef áætlunin stenst ekki, og ekki næst í göngumann eða göngumenn.

Hugsið fatnað á göngunni í þremur lögum. Innst eru nærföt, miðlagið þarf að hafa gott einangrunargildi, og ysta lagið þarf að vera vind- og vatnshelt. Gönguskór þurfa að vera með í ferð, og helst einhverskonar mannbroddar ef leið liggur um ísilagðar gönguleiðir.

Ef til stendur að ganga á fjöll er mikilvægt að taka með snjóflóðaýli, skóflu og snjóflóðaleitarstöng. Þar eru góðir mannbroddar líka algerlega nauðsynlegir, og líklega ísöxin líka. Þar er nauðsynlegt að vera með vönum göngumönnum í för sem geta ráðlagt nánar um útbúnað.

Að lokum er það svo GPS-tæki, kort og áttaviti ef fara á langt út í óbyggðir, en í öllu falli vel hlaðinn GSM-sími svo hægt sé að láta vita af sér. Gott er að kynna sér sérstaklega hvort símasamband er á þeim slóðum sem til stendur að labba á.

Góðar gönguleiðir víða
Það þarf ekki að fara langt til að finna fallegar gönguleiðir á jafnsléttu í nágrenni höfuðborgarinnar. Heiðmörk er frábært útivistarsvæði. Hægt er að ganga á Hólmsheiði, hjá Kaldárseli og víða á Reykjanesi.

Svo er alltaf gott að setjast niður þegar nokkuð er liðið á gönguna og fá sér hressingu. Heitt kaffi eða kakó á brúsa er algerlega nauðsynlegt. Samlokur eða annað seðjandi ætti að vera með í för í lengri gönguferðum. Og hvort sem gengið er lengi eða stutt er auðvitað ómissandi að vera með pakka af kexi frá Frón í nestispokanum. Mjólkurkexið frá Frón hentar vel í nestispokann, en svo er ekki verra að vera með gott súkkulaðikex með í för, til dæmis Kósý með kókos.

Deila |