Flestir núlifandi Íslendingar, ungir jafnt sem aldnir, þekkja Matarkex frá Frón. Það er engin tilviljun. Í ár verða liðin 90 ár frá því Frón tók til starfa, og um leið 90 ár frá því Matarkexið góða kom fyrst á markað.

Matarkexið hefur óneitanlega komið við sögu Íslendinga á degi hverjum eins lengi og elstu menn muna. Kexverksmiðjan Frón var stofnuð 12. júní 1926. Það stefnir því í stórafmæli á árinu. Fyrsta verksmiðja Frón var staðsett í húsi Betaníu við Laufásveg.

Það er gaman að hugsa til þess þegar maður bítur í Matarkex frá Frón að amma og afi hafi trúlega alist upp við það að borða einmitt þetta kex. Með tilkomu þess var stigið stórt skref í sögu íslensku þjóðarinnar. Þetta var fyrsta íslenska kextegundin sem framleidd var hér á landi.

Verksmiðjan okkar hjá Frón hefur flutt nokkrum sinnum á starfstíma fyrirtækisins. Við fórum af Laufásveginum á Grettisgötuna. Árið 1936 flutti verksmiðjan á Skúlagötuna. Í því húsnæði er nú rekið gistihúsið Kex Hostel, sem margir þekkja. Í dag er kexverksmiðjan staðsett við Tunguhálsinn í Árbænum.

Tækninni hefur eðlilega fleygt fram á þeim 90 árum sem Frón hefur séð Íslendingum fyrir kexi og kruðeríi. Í árdaga verksmiðjunnar voru allar vélar aðrar en bakaraofninn knúnar með handafli. Það er erfitt að ímynda sér hvernig starfsfólki Frón tókst að framleiða um 100 tonn af kexi á hverju ári þar til framleiðslan var rafvædd.
 
Dustaðu rykið af sögunni næst þegar þú ferð út í búð. Nældu þér í gulan pakka af Matarkexi. Þegar heim er komið er upplagt að brjóta kexköku í tvennt, dýfa í mjólk eða kaffi og hugsa aftur til afa og ömmu, sem hafa nær örugglega gert það sama einhvern vindasaman janúardaginn fyrir nokkrum áratugum síðan.

Deila |