Frændur okkar Færeyingar fagna sjómannadeginum vel og hressilega á hverju ári. Í ár siglir Húni II, eikarskip sem er í eigu Iðnaðarsafnsins á Akureyri, til Færeyja til að fagna með færeyskum sjómönnum. Mjólkurkexið frá Frón hefur fylgt íslenskum sjómönnum áratugum saman og að sjálfsögðu siglir Húni II vel vistaður af þessu klassíska kexi til  frænda okkar í Færeyjum.

Haldið verður upp á sjómannadaginn dagana 19.-23. ágúst í Færeyjum, enda dugir ekkert minna en fimm daga hátíð til að fagna færeyskum hetjum hafsins. Eins og í fyrra siglir akureyrski eikarbáturinn Húni II til Færeyja til að taka þátt í hátíðarhöldunum. Báturinn siglir áleiðis til Klaksvíkur á næstunni. Þar munu skipverjar taka á móti gestum og sýna áhugasömum Færeyingum Húna II.

Við hjá Frón gátum að sjálfsögðu ekki látið skipverja fara tómhenta til hátíðarhalda heldur nestuðum þá með Mjólkurkexinu góða og svolitlu af Kósý-kexinu líka svo þeir hafi bakkelsi til að bjóða forvitnum Færeyingum með kaffinu.

Húni II verður eflaust aufúsugestur í Færeyjum. Hann er stærsta  eikarskipið sem smíðað var á Íslandi sem enn flýtur og er 118 lesta stokkbirt þilfarsskip. Það var smíðað í Skipasmíðastöð KEA á Akureyri árin 1962-1963. Húni II var fyrst á síldveiðum en síðar á þorskanetum, trolli, humar, línu og netum áður en aftur var haldið á síldveiðar.

Keyptur á 10 krónur

Það getur verið dýrt að kaupa ný skip og um tíma þótti Húni II ekki sérlega verðmætt skip. Saga skipsins er rakin ítarlega á vefsíðunni fishernet.is. Þar segir að báturinn hafi lent á kvótakerfisflakki árið 1990 þegar lenskan hafi verið að úrelda báta og kaupa nýja.

Árið 1994 var Húni II keyptur af Þorvaldi Skaptasyni á Seyðisfirði fyrir 10 krónur. Þá var hann vélarlaus og beið þess eins að lenda á áramótabrennu. Eftir að hafa verið áfram á hrakhólum endaði Húni II í hvalaskoðun frá Hafnarfirði þar til honum var siglt til Akureyrar árið 2004. Þar var Hollvinafélag Húna II stofnað, og tveimur árum síðar keyptu ríki, bær og KEA skipið og gáfu Iðnaðarsafni Akureyrar það að gjöf.

Við óskum skipverjum á Húna II góðrar ferðar á siglingunni til Færeyja, og góðrar skemmtunar á sjómannadaginn. Vonandi verða frændur okkar í Færeyjum jafn ánægðir með Mjólkurkexið og Kósy-kexið frá Frón og íslenskir sjómenn hafa verið í gegnum tíðina!

Deila |