Sumir vita ekkert betra en að dýfa kexi í mjólk.Við höfum áður fjallað um svokallaðar dýfingar á kexi, það er þá list að brjóta uppáhalds kexið í hæfilega bita og dýfa því eftir listarinnar kúnstum í kaffi eða tebolla, nú eða kalda mjólk.

Þetta kann að hljóma einfalt í fyrstu, en það er í raun að mörgu að huga þegar kexi er dýft í kaffi eða te. Það er til dæmis mikilvægt að sulla ekki út um allt og svo vilja flestir ekki missa kexmylsnu í bollan sinn til að forðast svokallaða kafbáta eins og kexmylsna í bolla er stundum kölluð. Þá er það einnig vandasamt verk að ná að dýfa síðasta bitanum af kexinu án þess að missa hann ofan í bollann.
Nokkrar góðar reglur í dýfingum
Það er góð regla að dýfa einungis helming kexkökunnar hverju sinni og huga að því að hún sé bara ofan í bollanum í um þrjár sekúndur. Ekki vill maður að kexkakan verði of mjúk eða of stökk og þrjár sekúndur virðast henta vel fyrir flest kex frá Frón. Það er þó auðvitað óhætt að láta þéttasta kexið eins og Mjólkurkex vera aðeins lengur ofan í heldur en gljúpari kexkökur eins og Kósí.

Kremkexið er gott í dýfingar. Kexið sjálft verður mjúkt á meðan kremið heldur kexinu saman. Það fæst því ómóstæðileg blanda stífleika og mýktar sem fáar kexkökur geta státað af eftir dýfingar.

Kex eins og Kósí, eða annað kex með kókos í, hentar vel í te þar sem sætur keimur kókosins tekur vel á móti beiskjunni í teinu. Kókoskex er yfirleitt fljótt að blotna þannig að það þarf að gæta sérstaklega að því að dýfa kexkökunni ekki of lengi.

Súkkulaði María er kex sem er fremur þétt í sér og því tekur það ekki mikinn vökva í sig þó það taki dýfu í rjúkandi heitan kaffibolla. Það má hinsvegar ráða bót á því, fyrir þá sem það vilja, með því að taka tvær kexkökur og dýfa þeim saman. Þannig helst vökvinn á milli og kexkökurnar sjúga því vökvann aðeins betur í sig. Gætið bara að því að láta súkkulaðihliðina vísa út.

Hið ástsæla Matarkex sýgur að sumra mati ekki nægjanlega mikið af vökva í sig. Það er hinsvegar til einfalt ráð við því. Það er að brjóta kexkökuna í tvennt og dýfa sárinu í kaffibollann. Þannig fæst betri upptaka á kaffi og bragðið verður allt annað.

Það er að mörgu að huga eins og sjá má. En það skemmtilegasta er að prófa sig áfram í kexinu og finna sitt uppáhaldskex og sína eigin dýfingaraðferð. Helgin er tilvalin í þessar pælingar.

Deila |