Það er ansi líklegt að Sæmundur hafi mætt í sparifötunum um helgina þegar nýtt gistiheimili var opnað í gömlu kexverksmiðju Frón um helgina. Kex Hostel heitir gistiheimilið sem dregur nafn sitt augljóslega af gömlu Frón verksmiðjunni. Gistiheimilið býr yfir 142 rúmum; 32 herbergjum og stærri herbergjum fyrir 4,6,10 og upp í 16 manns. Þá eru tvö herbergi í svokölluðum hótelstandard.

Kex Hotel var formlega opnað með stíl um síðustu helgi en gistiheimilið mun hafa í hávegum þær minjar úr atvinnusögu Íslands sem Frón kexverksmiðjan fyrrverandi býr yfir.

Það eru þeir Pétur Marteinsson, fyrrum landsliðsmaður í knattspyrnu, Dagur Sigurðsson, margreynd handboltakempa, Eiður Smári Guðjohnsen, leikmaður Fullham, Hermann Hreiðarsson, leikmaður Portsmouth og athafnamaðurinn Kristinn Vilbergsson sem eru eigendur gistiheimilisins og munu gamlar innréttingar að einhverju leiti fá að halda sér.

Kremkex frá Frón – eða Sæmundur í sparifötunum eins og margir þekkja það – mun eflaust verða til taks, og gamlar myndir frá starfsseminni í húsinu munu setja mark sitt á gistiheimilið.

Þá verður mjög góður veitingarstaður á Kex Hostel sem Friðrik Valur Karlsson sér um og mun matseðill veitingarstaðarins einmitt heita Sæmundur á sparifötunum.

Ekki verður síður forvitnilegt fyrir gesti og gangandi að nýta sér þjónustu rakarans á svæðinu því hann rakar og klippir í gamla peningaskáp Frón verksmiðjunnar.

Það ætti að takast að halda í gamla Frón kexverksmiðjuandann fyrir þá fjölmörgu ferðalanga, innlenda sem erlenda, sem eiga eftir að sækja gistiheimilið heim og ljóst að lífsreynslan gæti orðið áhugaverð. Staðurinn þykir í það minnsta áhugaverður og hefur hann meðal annars númer eitt á síðunni tripadvisor.com.

Frón 85 ára
Það var árið 1936 sem Frón verksmiðjan flutti loks í húsnæðið að Skúlagötu 28 sem var fyrsta eigið húsnæði fyrirtækisins. Með flutningunum urðu töluverð þáttaskil í rekstrinum, hafist var handa við að endurnýja vélar og upp frá því ári nam framleiðslan að jafnaði alltaf yfir 100 tonnum af kexi á ári.

Í ár fagnar Frón 85 ára afmæli og því er það skemmtileg tilviljun að ný starfssemi sé komin í gömlu kexverksmiðjuna sem heiðrar minningu hússins og þátt þess í vexti Frón.

Í myndbandi sem Frón hefur látið útbúa í tilefni 85 ára afmælisins má sjá nokkrar myndir úr gömlu kexverksmiðjunni sem nú prýða einmitt veggi Kex Hostels.

Deila |