Rúm ein og hálf milljón Mjólkurkexkaka seldist á einu ári

Frá fyrsta janúar síðasta árs hefur Frón stutt við Rauða kross Íslands með því að láta hluta af söluandvirði hvers kexpakka af Frón Mjólkurkexi renna til innanlandsstarfs Rauða krossins.

Samningurinn var fyrsti sölusamningur félagsins um ákveðna vörutegund í sögu Rauða krossins á Íslandi og mikilvægur liður í því mikilvæga hjálparstarfi sem Rauði krossinn innir af hendi á landinu, og hefur gert frá árinu 1924.

Samkvæmt samningnum fær Rauði krossinn tíu krónur af hverjum seldum Frón Mjólkurkexpakka í eitt ár. Við uppgjör samningsins afhenti Hjördís Ósk Óskarsdóttir, markaðsstjóri Frón, söfnunarféð, 1.053.830 krónur, sem er afrakstur sölu á 1.580.745 kexkökum. Mikilvægt að eiga í samstarfi við íslensk fyrirtæki

Kristján Sturluson, framkvæmdastjóri Rauða krossins, lýsti því yfir þegar samningurinn var upprunalega undirritaður að það væri mikilvægt að eiga í samstarfi af þessu tagi við íslensk fyrirtæki. Búið er að ryðja brautina fyrir fyrirkomulag af þessu tagi en það hefur verið algengt í fjáröflun Rauða krossins erlendis.

Rauði krossinn stendur fyrir öflugu starfi innanlands fyrir þá sem eru berskjaldaðir í samfélaginu. Síðan efnahagshrunið varð árið 2008, hefur Rauði krossinn aukið við þjónustu sína við atvinnuleitendur og rekur meðal annars Rauðakrosshúsin sem eru miðstöðvar fyrir fólk sem orðið hefur fyrir áföllum vegna efnahagsþrenginganna. Þá gegnir félagið mikilvægu hlutverki í skipulagi almannavarna og veitir neyðaraðstoð þegar áföll verða.

Rauði krossinn er einnig leiðandi í fræðslu um skyndihjálp og sálrænan stuðning, og heimsóknarvinir Rauða krossins heimsækja mörg hundruð einstaklinga sem búa við félagslega einangrun. Þá rekur Rauði krossinn einnig Konukot, sem er athvarf Rauða krossins fyrir heimilislausar konur, og Hjálparsími Rauða krossins 1717 er öllum opinn allan ársins hring. Um 3000 sjálfboðaliðar Rauða krossins bera þetta innanlandsstarf félagsins uppi.

Að sögn Kristjáns Sturlusonar gefur samningur sem þessi Rauða krossinum gott færi á að styrkja innlenda framleiðslu og um leið styrkja það starf sem hreyfingin stendur fyrir hér á landi.

Það er einnig sérlega ánægjulegt fyrir rammíslenskt fyrirtæki eins og Frón að geta stutt við innanlandsstarf Rauða krossins með þessum hætti.

Í raun má segja að samstarf Frón og RKÍ byggi á grundvelli innlendrar starfssemi og gagnkvæmur stuðningur Frón og RKÍ sé afar mikilvægur í ljósi aðstæðna á landinu.

Á þeim tíma sem á samstarfinu stóð hefur Frón stutt við Rauða krossinn með margvíslegum hætti öðrum. Til dæmis var haldinn skiptimarkaður með barnaföt fyrir jólin 2009 og í maí 2010 þar sem fólk gat skipst á fötum og þar með endurnýtt þau. Að sjálfsögðu fylgdi með Mjólkurkex frá Frón.

Frón þakkar Rauða krossinum samstarfið og vonar að styrktarféð nýtist vel í brýn verkefni.

Deila |