Kexneysla á Íslandi er mun ábyrgari en á Bretlandseyjum

Áætla má að um 20 milljón manns hafi orðið fyrir skaða tengdum kexneyslu í Bretlandi samkvæmt þarlendri rannsókn. Rannsóknin, sem unnin var samkvæmt Hættumati á Kexskaða (the Biscuit Injury Threat Evaluation), leiddi í ljós að um þriðjungur fullorðinna hafi orðið fyrir minniháttar skaða, og um fimm hundruð manns hafa lent á spítala í tengslum við kexneyslu.

Eins og flesta grunar nú líklega þá er slík rannsókn frekar gerð í gríni en alvöru. Við hjá Frón erum sannfærð um að ábyrg kexneysla Íslendinga er innan öryggismarka, en þó getur verið gott að hafa varann á. Til að mynda leiddi breska rannsóknin í ljós að leyndar hættur eins og molar á flugi og skvettur vegna dýfinga ullu oftast skaða.

Sjaldgæfari og langsóttari ástæður voru að reka kexköku í augað á sér og detta af stólnum við að teygja sig í kexpakkann. Einn þáttakandi í rannsókninni hafði meira að segja lent í því að festast í blautri steypu eftir að hafa vaðið út í hana til að taka kexköku upp af götunni.

Rannsóknin, sem unnin var fyrir breskan súkkulaðikexframleiðanda, leiddi jafnframt í ljós að brunaskaðar gerðust einkum í tengslum við dýfingar eða við að veiða kexleifar upp úr heitum drykkjum. Kex hafði staðið í tæpum þriðjungi þátttakenda og einn af hverjum tíu hafði brotið tönn. Þrjú prósent höfðu óvart rekið kexkökuna í augað á sér og sjö prósent höfðu verið bitin af dýri sem reyndi að ná kexkökunni.

Þótt ólíklegt verði að teljast að slíkar niðurstöður standist hávísindalega gagnrýni, þá má vissulega slá því föstu að best er að njóta kexköku í friði og ró og fara sér að engu óðslega, enda eru kexstundirnar til að njóta þeirra.

Deila |