Mjólkurkexið gefur kökunni skemmtilega áferð

Það er alltaf gaman að gera tilraunir í eldhúsinu og ekki síst með eftirréttina. Eftirréttur getur auðvitað verið eins einfaldur og súkkulaðimoli eða kexkaka, en stundum er gaman að gefa sér tíma og nostra við sæta bitann.

Fyrir slík tilefni, gefum við hér uppskrift að eftirrétti sem á ættir sínar að rekja til Tyrklands. Þetta er kaka, sem þó þarf ekki að baka, og því einfalt að útbúa hana fyrirfram og eiga tilbúna í ísskápnum. Þannig má koma fjölskyldunni eða gestum skemmtilega á óvart.

Tyrknesk súkkulaðikaka (Bajadera)

Hráefni:

800 g sykur

2 dl vatn

250 g smjörlíki

300 g Mjólkurkex

300 g valhnetur (eða annars konar hnetur)

300 g súkkulaði

Aðferð:

Bræðið saman sykur, vatn og smjörlíki yfir lágum hita og leggið svo til hliðar.

Myljið Mjólkurkex og saxið hnetur smátt og bætið út í pottinn.

Þegar búið er að hræra þetta vel saman er deiginu skipt í tvennt og öðrum helmingnum hellt í form (ferkantað eða hefðbundið kökuform). Næst er 200 g af súkkulaði bætt út í hinn helminginn og hrært í þar til súkkulaðið er bráðnað.

Hellið þá súkkulaðihelmingnum af deiginu yfir hinn í forminu. Bræðið restina af súkkulaðinu og hellið yfir kökuna. Kakan er svo sett í kæliskáp, helst yfir nótt.

Kakan er frekar sæt þannig að gott er að skera hana í litla bita og bera þannig fram.

Verði ykkur að góðu!

Deila |