Matarkexið frá Frón hefur fylgt Íslendingum gegnum súrt og sætt í yfir áttatíu ár

Ef þú biður Íslending að nefna kex í gulum pakka þá eru allar líkur á að svarið komi fljótt og örugglega: Matarkex! Í heimi sífelldra breytinga er gott að vita að sumt breytist aldrei. Matarkexið frá Frón hefur komið við sögu á hverjum degi í yfir áttatíu ár enda fyrsta íslenska kexið. Frón hóf framleiðslu á Matarkexi árið 1926 og það hefur fylgt þjóðinni síðan í gegnum súrt og sætt.


Hver hefur sinn háttinn á við að borða Matarkexið. Sumir smyrja það og setja á það álegg, öðrum þykir best að bryðja það þurrt en líklega er hópur þeirra sem brýtur það og dýfir fjölmennastur. Þá skiptir engu hvort dýft er í mjólk, heitt kakó, kaffi eða te; hver á sitt uppáhald.

Matarkex fer ekki í manngreinarálit og fellur í kramið hjá ungum sem öldnum, strákum sem stelpum, og stjórnarþingmönnum sem þeim í stjórnarandstöðu. Enda gott að sameinast yfir kexköku eftir snörp skoðanaskipti. Allir geta verið sammála um að Matarkexið á sérstakan stað í hinni svokölluðu þjóðarsál.

Deila |