Vanillukornin eru dýrmæt


Vanilla er vinsælt bragðefni og sætt vanillukex er með því betra sem hægt er að leyfa sér. Kremkexið frá Frón, eða Sæmundur á sparifötunum eins og það er líka kallað, er himnesk samloka gerð úr tveimur ljúffengum vanillukexkökum með flauelsmjúku vanillukremi á milli.

Flestir vita að vanilla er ljúffeng, en færri vita að vanilla er lúxushráefni. Hún er unnin úr brönugrösum af Vanilluætt sem upprunnin er í Mexíkó. Nafnið er komið frá spænska orðinu ’vainilla’ sem þýðir „litli fræbelgur.“

Talið er að spænski landvinningamaðurinn Hernán Cortés hafi fyrstur komið með bæði vanillu og súkkulaði til Evrópu um 1520. Það var svo ekki fyrr en árið 1841 sem uppgötvaðist leið til að rækta vanillu utan Mexíkó þar sem aldrei tókst að frjóvga plöntuna fyrr utan heimahaganna.

Í dag eru þrjú mismunandi plöntuafbrigði af vanillu ræktuð, en þau eru öll upprunnin í Mið-Ameríku. Vanilla er annað dýrasta kryddið í heiminum á eftir saffrani, en það er vegna þeirrar gríðarlegu vinnu sem ræktun vanillunnar krefst.

Þrátt fyrir kostnaðinn, er vanillan afar vinsælt bragðefni, og einnig ilmefni, enda notuð jafnt í bakstur sem og ilmvatnsgerð og ilmkjarnaolíur.

Deila |